
Efnafræðiprófinu hefur verið frestað. Í partýinu er fólk undir áhrifum áfengis sem er skrýtið því að ríkið hefur verið lokað í mánuð. Sígarettur ganga kaupum og sölum, ef einhver birtist með hálfan pakka brjótast út slagsmál. Veðraður plastpoki fýkur um tómt bílastæði. Efnafræðiprófinu hefur verið aflýst. Kærastinn hringir látlaust, þau skiptast á nokkrum orðum milli þess sem hún afgreiðir síðustu kókosbollurnar og spurflöskurnar úr hillunum. Hann hangir í gráum tíkallasíma á Hlemmi með fulla vasa af klinki. Tómum hillum fylgja tækifæri. Eigandinn sýður hafragraut og lofar henni vinnu fram yfir jól.