Það fer tvennum sögum af upphafi þínu. Hvor er nær sannleikanum gildir einu. Í dag er orðið of seint að ráða í hvað er byggt á raunverulegri gleymsku, óttanum við staðreyndir eða hreinni lygi. Það er enginn lengur til frásagnar. Þú varst fyrsta barn foreldra þinna. Fæddur í fiskiþorpi á Vestfjörðum. Móðir þín, aðkomustúlka, aðeins 17 ára. Faðir þinn, innanbæjarmaður, litlu eldri. Hún kom vestur til að pilla rækju og hann sauð í dósir þessa sömu rækju. Hún var fyrsta stúlkan sem hafði nokkru sinni litið á hann tvisvar. Hvorugt velti tilfinningum mikið fyrir sér. Tilfinningar voru munaður. Það þurfti að staga og metta svanga maga. Þorpið var ekki fyrsti viðkomustaður. Hún hafði verið fyrir austan og norðan og eitt sumar í Borgarfirði. Þau drógust hvort að öðru. Hún dróst að rólegu, alvarlegu yfirborðinu og hann að umkomuleysi og óróleika hennar sem var svo mikill að honum fannst sem hún væri við það að leysast upp. Hann fann djúpstæða þörf fyrir að halda henni í fangi sínu til að koma í veg fyrir að hún hyrfi.
Ég geri ráð fyrir að þín hafi verið beðið með kvíðablandinni spennu. Bláfátæk, kornung móðir sem kunni ekki að fóta sig í heiminum. Eitthvað var svo yfirþyrmandi að móðir þín kaus að yfirgefa þig um leið og hún varð fótafær eftir sængurleguna. Hvað það var, verður ekki vitað svo óyggjandi sé. Hún sagði sjálf mörgum árum seinna að hún hefði flúið föður þinn sem hefði ekki verið henni góður. Sagan sem við heyrðum, við sem ólust upp með þér og þekktum þig frá upphafi þinnar stuttu ævi, var sú að hún hefði valið að sinna valíumglasinu frekar en hvítvoðungnum. Hún lagði á flótta. Hvor hlið sögunnar rammar inn meira af raunveruleikanum treysti ég mér ekki til að meta. Ég hitti móður þína í aðeins eitt skipti, aldraða konu við leiðið þitt þremur árum eftir dauða þinn. Mér fannst augljóst að það hafði gengið á ýmsu í hennar lífi. Ástæða undanhaldsins kannski illskýrð með orðum. Flótti sem á upptök sín í und sálardjúps ungrar ráðvilltar stúlku sem þurfti meira á því að halda að eiga mömmu en verða mamma.
Staðreyndir. Hún var 17 ára. Þú misstir mömmu þína 3ja daga. Þú saknaðir hennar allar stundir upp frá því. Tilfinningalíf þeirra sem tóku að sér uppeldi þitt var of hrjóstrugt til að sefa sorgir. Það bauð í mesta lagi upp á harða skel til að verja viðkvæmni útgöngu.
Þú varst viðkvæm stjarna. Tilfinningaríkur, uppfinningasamur, listamaður. Sögumaður, sögugerðarmaður. Í þrettán daga grést þú sáran. Þú þráðir órólega hjartsláttinn sem hafði svæft þig og vakið fyrstu 40 vikur tilveru þinnar. Þú þráðir að heyra röddina sem eyrun þín þekktu síðan þú kúrðir í vatnsfylltum pokanum. Þú grést í þrettán daga, þrjá klukkutíma og þrjátíu og sjö mínútur og þá skildirðu að það breytti engu að gráta. Hún kæmi ekki aftur, það myndi enginn koma. Þó að gráturinn hljóðni þá hættir hann ekki að vera til. Þú hélst áfram að gráta inni í þér.
Kláði í sálinni. Kláði sem ekkert fær sefað. Eins og kláðamaur hafi tekið sér bólfestu milli sálarinnar og líkamans. Aldrei eirð til að sitja kjur, aldrei ró í huganum til að draga til stafs, einungis kyrrð í hjartanu þessi andartök þegar stjörnurnar blikuðu óendanlega langt uppi í svörtum himninum, lognið var svo djúpt að það varpaði bergmáli til þín þannig að þú rannst saman við alheiminn og lentir mjúklega í þáinu-núinu í þann mund er mamma þín fór án þess að kveðja.
Seinna leitaðir þú móður þína uppi. Komst óvænt þar sem hún bjó. Þá uppgötvaðir þú bæði systur og bróður sem hvorugt vissu af tilveru þinni. Þú 27 ára, þau 13 og 15. Skrýtið að manns eigin móðir hafi mann í kyrrþey í 27 ár.
Þú uppgötvaðir þitt kláðameðal snemma. Kannski varstu 14 ára, kannski bara 13. Það kom ekki fullkomlega í staðinn fyrir langvarandi skort en það sló á, það róaði hugann, sefaði eirðarleysið, opnaði dyr gleymskunnar. Sönn ást? Ástin er kvikul, hverful og svikul.
Þú fórst að heiman. Hleyptir heimdragann hratt. Lentir í ýmsu. Sast bak við rimla, bjóst í Ameríku, eignaðist fimm börn, hörmungar, barnaverndarnefnd. Maður sem á ekki mömmu á erfitt með að vera pabbi. En hjartað þitt sló með börnum, Þú skildi börn. Þú elskaðir börn. Litli drengurinn, vissi best hvað börn þrá mest.
Það liðu mörg ár án þess að ég rækist á þig. Síðustu samskipti okkar í þessu líf, ég meina meðan við vorum bæði á lífi, voru á Laugaveginum. Ég var í bílnum mínum og skyndilega stóðst þú þarna fyrir framan hann á miðri götunni. Þú horfðir beint í augun mín, ég horfði beint inn í sálina þín. Hún var þarna enn þá, alveg jafn falleg og þegar ég sá hana fyrst, samt vantaði eitthvað, eitthvað sem ég áttaði mig ekki á hvað var. Eitthvað. Guð leyfði mér að sjá þig aftur tvisvar daginn áður en þú gafst upp á þrældóminum sem þú varst kominn í. Þá sá ég að eitthvað mikilvægt var farið. Þú tókst ákvörðunina sjálfur. Sennilega búinn að fá nóg. Varst líklega búinn að missa of mikið af sjálfum þér, kannski hættur að þekkja þig.
Svo gerðist nokkuð merkilegt. Það var apríl og liðin þrjú ár frá dauða þínum. Þú komst til mín í draumi. Þú varst heima hjá mér í þrettán daga og talaðir við mig. Þú áttir við mig erindi. Þú vildir hóa saman vinum til að hittast á afmælisdaginn þinn.
Röð undarlegra tilviljana réði því að ég fékk upp í hendurnar dásamlega fallega mynd af þér. Við fórum fimm saman upp að leiðinu þínu 29. apríl á fæðingardegi þínum. Það var heilög stund. Við lásum heilagt orð, kveiktum á kertum og settum myndina af þér á gröfina þína. Svo sungum við sálminn um dimman dal og grænar grundir. Kemur þá öldruð kona í fylgd aldraðs manns. Hún er beygð og tekin. Það hafði augljóslega gengið á ýmsu í hennar lífi. „Hver eruð þið eiginlega?” spurði konan örlítið feimin og hissa á að sjá okkur þarna. Ég held hún hafi raunverulega verið hissa á því að þú hefðir átt vini. Að þú hefðir kannski einhvern tímann átt eitthvað sem kallast venjulegt líf. Að þú hafir verið elskaður og þín væri saknað. Hún grét, við grétum.
Þegar ég kom heim eftir að hafa vitjað þín á afmælisdaginn þinn, varstu farinn. Ég hef ekki hitt þig síðan ekki fyrr en í dag þegar ég var að grennslast fyrir um söguefni hjá almættinu. Þá svaraðir þú fyrir hönd almættisins og óskaðir eftir minningargrein um þig. Þú hafðir nefnilega ekki fengið neina. Hér er hún. Ég vona að þú sért sáttur við hana og að hún sé nógu nálægt sannleikanum til að kallast ekki uppspuni. Hvíldu í friði og mundu að þú ert elskaður.
