Select Page

Inni á Mokka situr Nína með appelsínflösku og skeggjuðum manni. Á veggjunum hanga vatnslitamyndir af gömlum bárujárnshúsum eftir einhvern Gunnar. Staðurinn er troðinn og svo mikill sígarettureykur að það sést varla á milli borða.

            „Haæ!” Nína sprettur á fætur og faðmar mig að sér.

„Það er svo erfitt að ná í þig. Ég er búin að hringja og hringja.“

„Síminn er eitthvað bilaður.“ Svara ég.

„Allavegana gott að þú ert komin. þekkirðu ekki Véstein? Doktor Véstein?“

Skeggjaði maðurinn stendur á fætur og faðmar mig líka. Hann er þykkur og skvapkenndur viðkomu.

„Nínu vinir eru mínir vinir“ segir hann með brúnni baritónröddu.

„Ég var einmitt að segja við Véstein að þið yrðuð að hittast. Hann er magnaður.“

„Já?“

Ég er ekkert spennt fyrir kaffihúsaspjalli og faðmlagi við ókunnugan karlmann án þess að geta undirbúið mig. Nína er áköf:

“Við Erla erum eiginlega systur, við erum svo tengdar. Ég get sagt henni allt. Þú getur bara talað við hana eins og hún sé ég.“

Vésteinn kinkar kolli ábúðarfullur og sperrir brjóstkassann.

Það er alveg satt hjá Nínu, tengingin á milli okkar er sérstök. Við kynntumst inni á geðdeild. Ég var í sumarvinnu þar þegar hún kom inn í geðrofi. Nínu hafði verið bjargað úr sjónum á Ægisíðunni, það veit enginn ennþá hvaða erindi hún átti þangað. Hún var með sekk af útsaumuðum rúmteppum með sér. Svipt sjálfræði var hún lokuð inni, bræður hennar stóðu fyrir því. Síðan hefur Nína ekki talað við einn einasta ættingja sinn en hún gerði mig að systur sinni í staðinn. Ef fjölskyldu hennar ber á góma kraumar reiðin í Nínu. Hún kennir þessari sjálfræðissviftingu um allt sem aflaga hefur farið.

„Hvernig ertu búin að hafa það?” spyr ég.

„Fínt sko, já …” svarar Nína.

„Hún er að svífa inn í tólfta húsið og þá gerast alltaf stórkostlegir hlutir“ grípur dr. Vesteinn frammí.

„Ha?“ Hvái ég

„Það er dauðinn, hið eiginlega markmið lífsin, hinn eini tilgangur, Hlið Heljar.“ Hjómurinn í rödd Vésteins er eins og hann tali í gengum rör.

„Spennandi.“ Nína iðar í sætinu. „Hvað meira?“

„Núna er rétti tíminn til að finna ástina. Þegar Neptúnus er í þessari afstöðu við Fiskana og þú í tólfta húsi þá getur ekkert klikkað. Hinn fullkomni samruni.“ Vésteinn ræskir sig og snýr sér að mér: „Við erum með sameiginlegt karma. Við Nína erum tvíburasálir.“

Það er ekki víst að þessi doktor sé besti félagsskapurinn fyrir Nínu. Hann lætur móðan mása. Hann hefur frá nóg að segja en honum er efst í huga hvað hann sé mikill snillingur, mannkynslausnari og gömul sál. Við Nína náum ekki að skjóta inn einu einasta orði það er léttir þegar hann áttar sig á því hvað klukkan er og segist þurfa að fara. Hann sé að fara að kenna.

framhald …